2011 Selfoss

Landsmótsnefnd skipa:
Kolbrún Káradóttir, Halla Baldursdóttir og Petra Sigurðardóttir.

Landsmót 2011 - þakkir frá stjórn Gígjunnar

Landsmót íslenskra kvennakóra var haldið á Selfossi dagana 29. apríl - 1. maí sl. og var það fjölmennasta mótið til þessa. Alls hafa 8 landsmót verið haldin en fyrsta mótið fór fram í Ýdölum árið 1992. Jórukórinn á Selfossi átti veg og vanda að allri skipulagningu og framkvæmd mótsins að þessu sinn og tókst það alveg hreint glimrandi vel. Tímasetningar gengu vel upp og ótrúlegt hversu fljótt gekk að gefa öllum þessum hóp að borða, allt gekk snurðulaust og fljótt fyrir sig. Það er að ýmsu að huga þegar haldið er landsmót af þessari stærðargráðu og þær Jórukonur, með landsmótsnefndina skipaða þeim Petru Sigurðardóttur, Kolbrúnu Káradóttur og Höllu Baldursdóttur í fararbroddi, stóðu sig frábærlega í þeirri vinnu.

Þátttakendur mættu til leiks síðdegis föstudaginn 29. apríl, en alls voru 23 kórar skráðir á mótið. Eftir að mótsgögn höfðu verið afhent og kvöldverður snæddur var mótið formlega sett og mótsstjórinn kynntur, en það var Margrét Bóasdóttir sem tók það starf að sér og stjórnaði hún mótinu af mikilli röggsemi enda margreynd á því sviði. Félagar úr kvennakórnum Vox feminae fluttu síðan erindi um gildi þess að varðveita heimildir fyrir kvennakóra og kynntu ljósmyndabókina „da capo“ sem kórinn gaf út í tilefni af 15 ára afmæli kórsins. Að því loknu drifu mótsgestir, sem töldu yfir 600 konur og nokkra karla, sig af stað í 11 rútum sem héldu með allan hópinn í óvissuferð og þurfti lögreglufylgd til að koma allri lestinni út úr bænum. Bjarni Harðarson sá um leiðsögn í ferðinni af mikilli snilld og sagði margar skemmtilegar sögur af svæðinu og uppskar mikil hlátrasköll fyrir. Ekið var sem leið lá í Grímsnesið og að Kerinu þar sem makar Jórukvenna buðu upp á mjöð til að væta kverkarnar. Hófust síðan tónleikar í Kerinu þar sem Jóhann Stefánsson trompetleikari spilaði nokkur lög og Halla Dröfn Jónsdóttir sópransöngkona tók síðan við og söng þar sem hún stóð um borð í báti úti á vatninu. Heillaði hún alla viðstadda með sinni fögru rödd. Á meðan hún söng sýndu eldgleypar úr hjálparsveitinni Tintron í Grímsnesi listir sínar. Má með sanni segja að þetta hafi verið ógleymanleg upplifun og hljómburðurinn í Kerinu ótrúlegur. Síðan var haldið áfram og stefnan tekin á Úlfljótsvatn. Þar biðu hópsins léttar og ljúffengar veitingar í skála á svæðinu. Fyrir utan logaði varðeldur og þar var mættur söngvarinn Magnús Kjartan Eyjólfsson sem spilaði á gítar og söng við góðar undirtektir þrátt fyrir rigningu. Hafði hann á orði að aldrei áður hefði verið tekið svona vel undir hjá honum með rödduðum söng. Magnús var svo samferða hópnum til Selfoss og hélt söngnum áfram og tóku konurnar að sjálfsögðu vel undir. Þess má geta að Magnús er söngvari Stuðlabandsins sem spilaði síðan fyrir dansi á laugardagskvöldinu.

Að morgni laugardags mættu svo allar konurnar á æfingu í Iðu, íþróttahúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem sameiginlegu lögin voru æfð og eftir hádegi var skipt í hópa þar sem hver hópur æfði sín lög sem átti að flytja á hátíðartónleikum í Iðu á sunnudeginum. Þess á milli var hádegisverður og haldinn var félagsfundur Gígjunnar, formannafundur og kórstjórafundur. Síðdegis voru haldnir tvennir tónleikar, aðrir í Selfosskirkju en hinir í Iðu, þar sem þátttökukórar fluttu tvö til þrjú lög hver. Var gaman að sjá hversu marga flotta kvennakóra við eigum hér á Íslandi og greinilega mikil gróska í kvennakórastarfi enda hefur fjöldi þeirra aukist töluvert á undanförnum árum. Heiðursgestir tónleikanna voru forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, en þau hlýddu á kórana sem sungu í Iðu fyrir hlé en í Selfosskirkju eftir hlé. Eftir tónleikana höfðu konur tíma til að skipta um föt og hafa sig til fyrir hátíðarkvöldverð sem haldinn var í íþróttahúsi Sólvallaskóla. Þar gengu gestir inn rauðan dregil og tóku Jórukonur á móti þeim í flottum diskódressum og buðu upp á fordrykk. Dagskráin hófst síðan á stórskemmtilegu atriði þeirra Jóra þar sem þær sungu lag Páls Óskars, „Það geta ekki allir verið gordjöss“ og sýndu flotta diskódanstakta við fagnaðarlæti áhorfenda. Síðan var borinn fram glæsilegur kvöldverður sem makar og aðrir aðstandendur Jórukvenna báru fram af mikilli fagmennsku. Veislustjóri kvöldsins eða kynnir eins og hún vildi frekar hafa það, var Ingveldur Eiríksdóttir, prestsdóttir frá Þingvöllum og grunnskólakennari, og stýrði hún borðhaldi og skemmtiatriðum kvöldsins á léttu nótunum. Leikarar frá Leikfélagi Selfoss sýndu brot úr frumsömdu leikriti sem heitir „Hið dularfulla hvarf Hollvinafélagsins“ og síðan tróð upp ungur söngvari, Daníel Haukur Arnarsson og tókst honum að heilla flestar ef ekki allar konur í salnum upp úr skónum með frábærum söng. Það er greinilegt að það er nóg til af hæfileikaríku ungu fólki á Selfossi og nágrenni. Að lokum lék hljómsveitin Stuðlabandið frá Selfossi fyrir dansi og fóru þeir létt með að fylla dansgólfið og var dansað og sungið af mikilli innlifun fram á nótt. Ung söngkona frá Selfossi, Jóhanna Ómarsdóttir, söng einnig nokkur lög með hljómsveitinni, efnileg söngkona þar á ferð.

Á sunnudagsmorgni mættu konur á æfingar í vinnuhópum og var ótrúlegt hversu vel söngurinn hljómaði eftir fjörið kvöldið áður. Eftir hádegi var síðan lokaæfing á sameiginlegu lögunum og kl. 15 hófst síðan hápunktur mótsins, sjálfir hátíðartónleikarnir. Fyrst komu vinnuhóparnir fimm og fluttu sín lög en hver hópur hafði sitt þema. Fyrsti hópurinn flutti íslensk dægurlög undir stjórn Helenu R. Káradóttur en hún er stjórnandi Jórukórsins. Um hljóðfæraleik sáu Þórlaug Bjarnadóttir, Jóhann Stefánsson og Smári Kristjánsson. Næsti hópur flutti Björgvinslög, þ.e. lög eftir Björgvin Þ. Valdimarsson og stjórnaði hann hópnum sjálfur. Þriðji hópurinn skellti sér „Í sveiflu með Kristjönu“ en það var Kristjana Stefánsdóttir söngkona sem stjórnaði þeim hóp og söng einnig með. Hljóðfæraleikarar voru Vignir Þór Stefánsson, Smári Kristjánsson og Gunnar Jónsson. Fjórði hópurinn söng Flóaperlur, en það voru lög eftir tónskáld úr Flóanum. Stjórnandi hópsins var Eyrún Jónasdóttir sem er stjórnandi Kvennakórsins Ljósbrár. Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Jóhann Stefánsson og Smári Kristjánsson sáu um hljóðfæraleik. Síðasti hópurinn söng óperukóra og var það Elín Ósk Óskarsdóttir sópransöngkona sem stjórnaði þeim. Antonia Hevesi lék með á píanó. Að lokum sameinuðust allar konurnar, rúmlega 600 talsins, í einn risastóran kór sem flutti nokkur lög undir stjórn Helenu R. Káradóttur og Vignis Þórs Stefánssonar við undirleik Stórsveitar Suðurlands. Bar þar hæst frumflutningur á landsmótslaginu 2011, „Haustkvöld“ eftir Örlyg Benediktsson við texta Brynju Bjarnadóttur. Þetta voru stórglæsilegir tónleikar sem fóru fram í Iðu fyrir troðfullu húsi og var mögnuð upplifun að syngja í svo stórum kór. Til þess að breyta þessu íþróttahúsi í tónleikahús þurfti hljóðkerfi og fleira og sá fyrirtækið EB kerfi á Selfossi um þá hlið og voru þar greinilega fagmenn á ferð. Eftir tónleika var haldið yfir í Sólvallaskóla þar sem haldið var kveðjukaffi. Það voru síðan þreyttar en alsælar konur sem héldu til síns heima að loknu frábæru og ógleymanlegu landsmóti.

Stjórn Gígjunnar óskar Jórukórnum til hamingju með þetta stórglæsilega landsmót og þakkar þeim og þeirra fólki á Selfossi fyrir frábært starf við skipulagningu og framkvæmd mótsins og fyrir frábærar móttökur.

Kvennakór Akureyrar mun halda næsta landsmót á Akureyri árið 2014 og eflaust bíða margar konur spenntar eftir því.

Kæru landsmótsgestir


Jórukórinn þakkar ykkur öllum kærlega fyrir síðast og einnig þökkum við allar þær hlýju kveðjur sem við höfum fengið sendar eftir mótið, þær ylja svo sannarlega. Við erum alsælar með hvernig til tókst og einnig stoltar af mótinu í heild sinni. Það var ógleymanleg upplifun fyrir okkur Jórur að sjá margra mánaða vinnu skila sér í þessu landsmóti. Minningin um þessa helgi mun ávallt fylgja okkur.
Það eru í vinnslu hljóðupptökur af tónleikunum og einnig mynddiskur með ýmsu efni frá mótinu. Þessir diskar verða sendir út um leið og þeir eru tilbúnir.

Við þökkum ykkur öllum fyrir að hafa deilt þessum vordögum með okkur hér á Selfossi.
Við förum nú syngjandi sælar út í sumarið og sólina.
Nú er bara að stefna á Akureyri vorið 2014 - Jórukórinn er allavega búinn að bóka á Hótel KEA ;-)

Kærar kveðjur frá Jórukórnum Selfossi

Heilir og sælir kæru landsmótsgestir (22. apríl 2011)

Nú er bara vika í landsmótið okkar og því er tímabært að huga að því hverju má alls ekki gleyma að pakka niður í töskuna. Fyrst skal nefna kórdressið, síðan er það vinnuheftið góða með öllum nótum mótsins. Fyrir óvissuferðina er nauðsynlegt að hafa hlýjan útivistarfatnað og góða skó og hvetjum við alla til að mæta í hana – því við Jórur lofum frábærri ferð. Partýdress fyrir laugardagskvöldið er gott að hafa með en því má einnig redda hér á Selfossi í hinum mörgu verslunum sem hér eru. Að sjálfsögðu verður góða skapið með í för og einnig verður nóg af því hér á staðnum.

Á heimasíðu Jórukórsins www.jorukorinn.is og á gigjan.is eru allar upplýsingar um mótið. Þar er t.d. dagskrá mótsins, tónleikaskrá og skipting kóra á milli tónleikastaða á laugardeginum, endilega hvetjið ykkar fólk til þess að taka sér bíltúr hingað á Selfoss þessa helgi og mæta á flotta tónleika. Einnig er þar matseðill mótsins og ef einhverjar sér óskir eru með matinn á hátíðarkvöldverðinum þá munum við reyna að koma til móts við þær. Inni á heimasíðu Jórukórsins er einnig hægt að hlusta á landsmótslagið, bæði með og án stórsveitar og einnig hverja rödd fyrir sig.

Skráningu á mótið er að ljúka og eru tæplega 600 konur skráðar til leiks og því er þetta stærsta landsmót sem haldið hefur verið.

Við hittumst því hressar og kátar næsta föstudag og leggjumst allar á bæn með það að veðrið lagist eitthvað og vorið fari að koma .

Bestu kveðjur frá spenntum Jórum  

DAGSKRÁ 8. LANDSMÓTS KVENNAKÓRA Á SELFOSSI

29. APRÍL -1. MAÍ 2011
FÖSTUDAGUR 29. APRÍL

17.30 - 18.30 Móttaka í Sólvallaskóla, afhending mótsgagna, kórar hitta tengiliði og fá búningsaðstöðu
18.30 - 20.00 Kvöldverður í Íþróttahúsi Sólvallaskóla (þar sem allar máltíðir verða)

Setning landsmótsins

Á söguslóð kvennakóra Erindi frá Vox Feminae - Sigríður Anna Ellerup og Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir
20.00 - 23.00 Óvissuferð – farið frá Sólvallaskóla

LAUGARDAGUR 30. APRÍL

09.00 - 11.00 Sameiginleg æfing í Iðu (Íþróttahús Fjölbrautaskóla Suðurlands). Allir þátttakendur
11.00 - 11.30 Félagsfundur Gígjunnar í Iðu. Allir þátttakendur
11.30 - 12.30 Hádegisverður
12.30 -13.30 Frjáls tími

Kórstjórnendur funda í Iðu og formenn kóranna funda í Iðu

13.30 - 15.00 Æfing í vinnuhópum (nánari upplýsingar í mótsblaði)
15.00 - 15.15 Kaffi á æfingastöðunum
15.15 - 16.00 Frjáls tími, undirbúningur fyrir tónleika
16.00 - 17.30 Tónleikar kóranna í Iðu og Selfosskirkju

Sjá skiptingu milli tónleikastaða á www.jorukorinn.is og www.gigjan.is

17.30 - 19.30 Frjáls tími, undirbúningur fyrir kvöldið
19.30 - 01.00 Hátíðarkvöldverður og dansleikur í Íþróttahúsi Sólvallaskóla

SUNNUDAGUR 1. MAÍ

09.30 - 11.30 Æfing í vinnuhópum
11.30 - 12.30 Hádegisverður
12.30 - 14.00 Æfing í Iðu með Stórsveit Suðurlands. Allir þátttakendur
14.00 - 15.00 Undirbúningur fyrir tónleika
15.00 - 16.30 Hátíðartónleikar í Iðu
16.30 - 17.30 Kveðjukaffi í Íþróttahúsi Sólvallaskóla, móti slitið

Tónleikaskrá landsmóts 2011 (24. apríl 2011)

Sjá tónleikaskrá á vefsíðu Jórukórsins

Matseðill á landsmóti 2011 (24. apríl 2011)

Föstudagur 29.apríl

Kvöldverður
Rjómalöguð brocoli og blómkálssúpa, pastasalat, hrásalat og nýbakað brauð

Laugardagur 30.apríl

Hádegisverður
Lasagna, hrísgrjón, hrásalat og brauð.

Miðdegiskaffi
Kleinur, kanilsnúðar og kaffi

Hátíðarkvöldverður
Forréttur: Rjómalöguð skógarsveppasúpa og nýbakað brauð
Aðalréttur: Lambasteik , rösti kartöflur, rótargrænmeti og rósmarinsósu
Eftirréttur: Súkkulaðikaka m/ Skógarberjablöndu og rjóma

Sunnudagur 1. Maí

Hádegisverður
Amerískar pönnukökur, eggjakökur, pylsur, hrásalat og brauð

Miðdegiskaffi
Hátíðarrjóma-marsipanterta og kaffi

Tónleikar kóra í Selfosskirkju og Iðu - skipting kóra (19. apríl 2011)

Selfosskirkja kl 16.00

Uppsveitasystur Flúðum
Kvennakór Ísafjarðar
Heklurnar Mosfellsbæ
Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn
Kvennakór Garðabæjar
Kvennakórinn Norðurljós
Kvennakórinn Ymur Akranesi
Salka kvennakór Dalvík
Kyrjukórinn Þorlákshöfn
Vox feminae Reykjavík

Iða kl. 16.00

Kyrjurnar Reykjavík
Freyjukórinn í Borgarfirði
Jórukórinn Selfossi
Kvennakór Akureyrar
Kvennakór Hornafjarðar
Kvennakór Suðurnesja
Kvennakór Hafnarfjarðar
Kvennakórinn Ljósbrá Hellu
Kvennakórinn Seljurnar Reykjavík
Léttsveit Reykjavíkur

Eftirfarandi kórar hafa skráð sig á landsmótið (2. mars 2011)

Cantabile Reykjavík
Freyjukórinn í Borgarfirði
Heklurnar Mosfellsbæ
Ísl. Kvennakórinn í Kaupmannahöfn
Jórukórinn Selfossi
Kvennakór Akureyrar
Kvennakór Garðabæjar
Kvennakór Hafnarfjarðar
Kvennakór Hornafjarðar
Kvennakór Ísafjarðar
Kvennakór Kópavogs
Kvennakór Suðurnesja
Kvennakórinn Norðurljós Hólmavík
Kvennakórinn Ljósbrá Hellu
Kvennakórinn Salka Dalvík
Kvennakórinn Seljur Reykjavík
Kvennakórinn Ymur Akranesi
Kyrjukórinn Þorlákshöfn
Kyrjurnar Reykjavík
Léttsveit Reykjavíkur
Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur
Uppsveitasystur Flúðum
Vox Feminae Reykjavík

Nýjar fréttir af Landsmótinu í vor (2. mars 2011)

Um 600 konur hafa skráð sig á Landsmótið í vor og erum við í Jórukórnum alveg himinlifandi yfir þessari frábæru þátttöku. Skráðir eru 23 kórar víðsvegar að af landinu. Búið er að skipta kórunum niður í vinnuhópa og vonum við að allir séu sáttir, en að sjálfsögðu komast ekki allir í þann hóp sem þeir völdu í fyrsta sæti. Ákveðið var að útbúa vinnuhefti með öllum nótum mótsins og eiga allir að vera búnir að fá það í hendur, ef svo er ekki endilega hafið þá samband við landsmótsnefndina.

Jórukórinn hefur opnað nýja heimasíðu www.jorukorinn.is og hvetjum við ykkur til þess að skoða hana en þar eru ýmsar upplýsingar um Landsmótið og einnig um Jórukórinn. Fljótlega munum við gefa út dagskrá mótsins en hún verður með svipuðu sniði og síðustu mót. Mótsgjaldið liggur ekki alveg fyrir en það mun allavega ekki fara yfir 20 þús kr.

Á laugardeginum 30.apríl verða tónleikar þar sem flestir kórarnir syngja 2-3 lög einir og munum við fljótlega kalla eftir upplýsingum um hvaða lög það verða.

Bestu kveðjur frá Jórukórnum Selfossi

Gleðilegt ár Gígjukonur (11. janúar 2011)


Við í Jórukórnum á Selfossi sendum öllum kvennakórskonum í Gígjunni bestu óskir um heillaríkt ár og þökkum kærlega fyrir góð samskipti á liðnu ári.

Nú fer að styttast í Landsmótið okkar í vor og verður að segjast að við erum að verða virkilega spenntar. Það lítur vel út með þátttöku af öllu landinu og finnst okkur það mjög skemmtilegt.

Við viljum minna á að miðað er við að skráningu á mótið og greiðslu staðfestingargjalds sé lokið 15. janúar nk. Staðfestingargjaldið er 5.000 kr. á konu og óskum við eftir að greitt sé fyrir hvern kór í einni greiðslu. Reikningsnúmerið er 1169-26-1631, kennitalan 631097-3249 og netfangið er kolbrunka@gmail.com. Mikilvægt er að fá skráninguna á réttum tíma svo við getum haldið áfram með skipulagningu mótsins og farið að gefa út hvert mótsgjaldið verður.

Meðfylgjandi er endanleg útgáfa af vinnuhópunum og gott væri að þeir kórar sem eiga eftir að senda upplýsingar um í hvaða vinnuhópi þeir vilja vera, geri það sem fyrst.
Ef einhverjar spurningar eru þá endilega sendið okkur póst.

Bestu kveðjur frá Jórunum á Selfossi

LANDSMÓT ÍSLENSKRA KVENNAKÓRA Á SELFOSSI 29. APRÍL – 1. MAÍ 2011 (23. nóvemberg 2011)

VINNUHÓPAR

Dægurlagahópur - Stjórnandi: Helena Káradóttir
Helena er frá Selfossi og hefur stjórnað Jórukórnum í mörg ár og hefur í gegnum tíðina útsett fjölda laga fyrir kórinn. Hún hefur þá einkum tekið fyrir íslensk dægurlög og verður hún hér með nokkur valin lög úr þeim geiranum.
  • Angel Lag og ljóð: KK
  • Þér við hlið Lag: Trausti Magnússon. Ljóð: Magnús Þ. Sigmundsson
  • Cyrano Lag: Hjálmar H. Ragnarsson

Björgvinshópur - Stjórnandi : Björgvin Þ. Valdimarsson

Selfyssingurinn Björgvin Þ. Valdimarsson er löngu landsþekktur fyrir lögin sín sem mörg hver hafa notið mikilla vinsælda eins og til dæmis Undir dalanna sól og Kveðja heimanað. Hann ætlar að stýra nokkrum lögum úr sinni smiðju sem hann samdi við ljóð Þorsteins Valdimarssonar.
  • Vöxtur – Vorlauf – Fögnuður
  • Andra á Hallormsstað
  • Signing
Í sveiflu með Kristjönu Stefáns - Stjórnandi: Kristjana Stefánsdóttir
Kristjana Stefánsdóttir, djasssöngkona með meiru, er enn einn Selfyssingurinn sem við teflum fram. Hún ætlar hér að taka okkur í létta swing-þjálfun ásamt því að taka lagið sjálf með hópnum.
  • Einu sinni á ágústkvöldi Lag: Jón Múli Árnason. Ljóð: Jónas Árnason
  • Já svo sannarlega Lag: Lawrence. Ljóð: Þórarinn Eldjárn.
  • The Boy from New York City Lag og ljóð: John Taylor.
Flóaperlur - Stjórnandi: Eyrún Jónasdóttir
Hinn svo kallaði “Flói” er landsvæðið milli Þjórsár annars vegar og Hvítár/Ölfusár hins vegar. Mörg þjóðþekkt tónskáld hafa komið úr Flóanum og má þar nefna Pál Ísólfsson frá Stokkseyri og Sigfús Einarsson frá Eyrarbakka. Hér verða tekin fyrir tvö lög eftir þá í splunkunýjum raddsetningum fyrir kvennakór eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.
Úr yngri deildinni tökum við svo lag eftir þriðja Flóamanninn; Ingólf Þórarinsson frá Selfossi og verður það Bahama sem flestir ættu kannast við.
Þessu stýrir Eyrún Jónasdóttir, stjórnandi Ljósbránna úr Rangárvallasýslu.
  • Í dag skein sól Lag: Páll Ísólfsson. Ljóð: Davíð Stefánsson
  • Draumalandið Lag: Sigfús Einarsson. Ljóð: Jón Trausti
  • Bahama Lag og ljóð: Ingólfur Þórarinsson
Óperukórar - Stjórnandi: Elín Ósk Óskarsdóttir
Elín Ósk er ein fremsta söngkona landsins og hefur einnig getið sér gott orð sem kórstjóri hjá Óperukór Hafnafjarðar. Hún ætlar að leiða okkur inn á svið óperunnar og vinna með okkur tvo óperukóra úr jafn mörgum óperum.
  • O Pastorelle, Addio - úr Andrea Chénier, e. Giordano
  • Spunakórinn - úr Hollendingurinn fljúgandi, e. Wagner
Sameiginleg lög allra þátttakenda með Stórsveit Suðurlands
Við höfum fengið Stórsveit Suðurlands til liðs við okkur og mun hún leika með okkur í þessum sameiginlegu lögum allra þátttakenda mótsins. Stjórnandi stórsveitarinnar er Vignir Þór Stefánsson.
  • Time to Say Goodbye Lag og ljóð: Francesco Sartori, Lucio Quarantotto and Frank Peterson
  • Sumar konur Lag og ljóð: Bubbi Morthens
  • Vegir liggja til allra átta Lag: Sigfús Halldórsson. Ljóð: Indriði G. Þorsteinsson
  • Haustkvöld / Landsmótslagið 2011 Lag: Örlygur Benediktsson. Ljóð: Brynja Bjarnadóttir               

Ágætu kvennakórar (23. nóvember 2010)


Á aðalfundi Gígjunnar í október sl var Landsmótið á Selfossi kynnt fyrir fundargestum. Við vorum þar með stutt kynningarmyndband sem við höfum útbúið og einnig vorum við með upplýsingar um vinnuhópana og sameiginlegu lögin sem verða á mótinu. Það hefur dregist hjá okkur að senda þetta út því við þurftum að laga myndbandið aðeins en nú er það tilbúið og hér með fylgir tengill inn á þetta myndband. Upplýsingar um vinnuhópana fylgir með þessum pósti sem viðhengi. Þið skulið endilega skoða þetta vel og getið síðan einnig áframsent þetta á ykkur kórkonur.

http://vimeo.com/16980171

Það lítur út fyrir mjög góða mætingu hingað á Selfoss næsta vor því margir kórar hafa látið vita að þeir ætla að mæta, en okkur langar samt að biðja alla þá sem ætla að koma að svara þessum pósti og senda eftirfarandi upplýsingar:


  1. Hve margar konur mæta líklega frá kórnum.
  2. Hvar kórinn er með gistingu.
  3. Óskir um vinnuhópa, velja 3 vinnuhópa. 

1. val - er sá vinnuhópur sem kórinn vill helst taka þátt í.
2. val - er vinnuhópur sem er í öðru sæti hjá kórnum.
3. val - er vinnuhópur sem er í þriðja sæti hjá kórnum.

Ekki er hægt að lofa því að allir komist í þann vinnuhóp sem er í 1. vali. Einnig er rétt að taka fram að ætlast er til að kórkonur verði búnar að æfa lögin fyrir vinnuhópana. Því er gert ráð fyrir að kórinn fari allur í sama vinnuhóp, nema þegar um er að ræða mjög stóran kór og einnig ef stjórnandi viðkomandi kórs treystir sér til þess að æfa fyrir fleiri en einn vinnuhóp.

Staðfestingargjaldið er 5.000 kr á konu og er óafturkræft, það þarf að greiða í síðasta lagi 15.janúar 2011.
Reikningsnúmerið er 1169-26-1631 og kt. 631097-3249
.

Vinsamlegast sendið upplýsingar á netfangið kolbrunka@gmail.com þegar staðfestingargjaldið er greitt.

Mótsgjaldið er ekki komið á hreint en verður allavega innan við 20.000 kr.

Fljótlega eftir 15.janúar 2011 þegar viðkomandi kór hefur greitt staðfestingargjaldið verða nótur sendar út.

Við hlökkum til að heyra í ykkur
Bestu kveðjur frá Landsmótsnefndinni Selfossi