Landsmót á Akureyri 2014

Landsmótsnefnd skipa:

Snæfríð Egilson, Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir og Hólmfríður Þorsteinsdóttir.

Kveðja frá Kvennakór Garðabæjar

17. maí 2014
Kæru söngsystur í Kvennakór Akureyrar

Bestu þakkir fyrir landsmótshelgina og þetta stórkostlega kvennakóralandsmót.

Það er aðdáunarvert hversu vel ykkur tókst að skipuleggja alla liði mótsins og halda vel tímaplani og enginn þarf að efast um hversu brjálæðislega mikil vinna þetta hefur verið.

Við í Kvennakór Garðabæjar viljum koma á framfæri til ykkar aðdáun okkar á landsmótinu öllu í heild sinni; glæsilegum smiðjustjórum og öðru tónlsitarfólki, aðstöðu til æfinga og síðast en ekki síst húsakynnin í Hofi. Það var auðvitað alveg einstök upplifun að fá tækifæri til að syngja í þessu stórglæsilega tónlistarhúsi ykkar Akureyringa og við þökkum ykkur kærlega fyrir það og óskum ykkur til hamingju með húsið.

Hátíðarkvöldverðurinn var ótrúlega vel heppnaður og veislustjórinn hún Hildur Bolladóttir fór algjörlega á kostum, enda lagði hún skemmtilega út frá systur sinni, Jónu Hrönn Bolladóttur, sem er einn presta Garðbæinga og kona sem við þekkjum vel af góðu í gegnum samstarf okkar og Vídalínskirkju. Þannig að það var auðvitað auka krydd í grínið að þekkja vel til prests :-)
Það var mögnuð upplifun að standa á stóra sviðinu í Hofi og syngja sameiginlegu lögin undir stjórn Guðmundar Óla með öllum þessum sjöhundruð konum og strengjasveitinni; eiginlega vart hægt að lýsa þeirri tilfinningu.

Það fór engin svöng eða svelt frá höfuðstað norðurlands á sunnudagskvöldið því allur sá matur og drykkur sem í okkur var borinn allan daginn alla dagana var algjörlega til fyrirmyndar og þið megið bera Bautanum okkar bestu þakkir fyrir góðan mat.

Kæru vinkonur, bestu þakkir fyrir okkur og hvílið ykkur nú vel eftir þetta allt saman.

Kveðja frá Kvennakór Garðabæjar

Kveðja frá Kvennakór Akureyrar að afloknu landsmóti

16. maí 2014
Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, stendur fyrir landsmótum á þriggja ára fresti. Helgina 9.-11. maí 2014 var níunda landsmótið haldið á Akureyri. Kvennakór Akureyrar fékk það hlutverk fyrir þremur árum á Selfossi að sjá um skipulagningu og framkvæmd þessa móts. Tuttugu kvennakórar víðsvegar að af landinu komu til þátttöku og einn gestakór, Vox Humana kom frá Mandal í Noregi. Það voru því á áttunda hundrað konur sem settu sterkan svip á bæjarlífið á Akureyri þessa helgi og söngurinn ómaði um bæinn.

Mótið var sett á föstudegi í Menningarhúsinu Hofi en að afloknum kvöldverði í Íþróttahöllinni hélt allur skarinn niður í kirkjutröppur þar sem sungið var ljóðið Akureyri og norðrið fagra eftir Stefán Vilhjálmsson við lag Jóns Ásgeirssonar við Maístjörnuna. Að því loknu var haldið í miðbæinn þar sem nemendur úr Tónlistarskólanum skemmtu með söng og spili. Næst var safnast saman í Skátagili þar sem Anna Richardsdóttir framdi einn af sínum frægu gjörningum fyrir landsmótskonurnar. Þá var komið að einu atriðinu enn í þessari ferð um miðbæinn, gangan flæddi niður að Hofi, konurnar mynduðu hring um Hof, reyndar var hringurinn tvöfaldur og svo var Hofið umfaðmað af öllum þessum konum. Þar var svo dvalið um stund við veitingar og söng.

Á laugardeginum tók alvaran við. Unnið var í sex söngsmiðjum, sem hver hafði sitt þema með þremur lögum og dreifðust smiðjurnar víðs vegar um bæinn. Þar blönduðust þá nokkrir kórar saman í hverja smiðju og var fjöldinn í hverri smiðju um og yfir 100 manns. Við tóku þrotlausar æfingar ýmist í smiðjunum eða þá að þær sameinuðust í einn stóran kór sem æfði fjögur lög. Á laugardeginum var gert hlé á æfingum og þá voru haldnir tónleikar bæði í Hamraborg og í Hömrum í Hofi þar sem hver þátttökukór flutti nokkur lög af sínu eigin prógrammi. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í Íþróttahöllinni þar sem sr. Hildur Eir stjórnaði veislunni af sinni alkunnu snilld, Vox Humana frá Noregi söng fyrir hátíðargesti og voru hreint frábærar. Óskar Pétursson og Snorri Guðvarðsson skemmtu og hljómsveitin Einn og sjötíu lék fyrir dansi. Af og til var svo brugðið upp útsendingu frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og líklega hefur þetta verið stærsta Eurovision-partý landsins.

Á sunnudeginum hófust æfingar kl. 9 og áfram haldið með æfingar í söngsmiðjum og í sameiginlegum kór. Afraksturinn var svo fluttur í Hamraborginni í Hofi kl. 15:00. Þar komu fram: Gígjusmiðja, stjórnandi Sigrún Magna Þórsteinsdóttir; Madrigalasmiðja, stjórnandi Michael Jón Clarke; Norræn kvennakóralög, stjórnandi Ingibjörg Guðjónsdóttir; Rokksmiðja, stjórnandi Sigríður Eyþórsdóttir; Spunasmiðja, stjórnandi Eyþór Ingi Jónsson; Þjóðlagasmiðja, stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson. Sameiginlegum kór með 700 konum stjórnaði Guðmundur Óli Gunnarsson, sem einnig stjórnaði hljómsveit skipaðri félögum úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem og nemendum og kennurum úr Tónlistarskólanum á Akureyri. Fyrir hvert landsmót er samið við tónskáld um að semja sérstakt landsmótslag. Að þessu sinni varð Hugi Guðmundsson tónskáld fyrir valinu og var lag hans við texta Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í Garði frumflutt á tónleikunum.

Að afloknum vel heppnuðum hátíðartónleikum voru mótsslit þar sem Una Þórey formaður Kvennakórs Akureyrar þakkaði mótsgestum fyrir komuna og mótsstjóri Margrét Bóasdóttir, stjórnendur og þátttökukórar fengu þakklætisvott fyrir afar vel unnin og vönduð störf. Formaður norska gestakórsins ávarpaði samkomuna á íslensku og þakkaði móttökurnar. Einnig fengu þær Snæfríð, Anna og Hólmfríður í landsmótsnefndinni verðskuldaðar þakkir fyrir frábært skipulag og alla yfirumsjón með mótinu. Formaður Gígjunnar, Þórhildur G. Kristjánsdóttir, þakkaði Kvennakór Akureyrar fyrir mótshaldið og mótttökurnar og afhenti síðan Kvennakór Ísafjarðar boltann og næsta landsmót íslenskra kvennakóra verður því haldið á Ísafirði vorið 2017. Að þessu loknu um kl. 18:00 var boðið upp á léttar veitingar og hélt síðan hver til síns heima um langan eða skamman veg.

Kvennakór Akureyrar með Daníel Þorsteinsson í broddi fylkingar, þakkar kærlega og af öllu hjarta öllum sem tóku á einhvern hátt þátt í því að gera þetta landsmót sem veglegast.

Bautanum á Akureyri viljum við þakka fyrir dásamlegan mat alla helgina og héðan fór enginn svangur. Starfsfólk Hofs fær einnig okkar innilegustu þakkir fyrir frábæra þjónustu og aðstoð og það var mikil upplifun fyrir kórkonur að fá að syngja í þessu flotta menningarhúsi. Kórkonur voru myndaðar í bak og fyrir alla helgina og heiðurinn að þeim myndum eiga þær ÁLFkonur Linda Ólafsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir.

Mótsstjóra og þátttökukórum, þá sérstaklega Kvennakórnum Sölku á Dalvík, er þakkað fyrir þeirra hlut til að gera þetta landsmót að skemmtilegum, litríkum og gefandi viðburði. Kórstjórum, söngsmiðjustjórum og hljóðfæraleikurum er einnig þakkað fyrir dásamlega samveru um helgina.

Minningin um ykkur öll og frábæra söngveislu lifir!

Mótsblað og tónleikaskrár

7. maí 2014
Mótsblað landsmótsins er komið út og fá mótsgestir það afhent við komuna á landsmótið.
Hægt er að skoða það á pdf formi og einnig má nálgast tónleikaskrár fyrir tónleika landsmótsins á pdf formi:

Lokapistill vegna landsmóts

7. maí 2014
Kæru kórsystur

Nú eru bara nokkrir dagar í landsmótið og við erum orðnar mjög spenntar að fá ykkur allar hingað til Akureyrar og hlökkum til að eyða næstu helgi með ykkur í söng og gleði.

Á móttökunni í Hofi á föstudaginn munu tengiliðir kóranna taka á móti ykkur og vera ykkur innan handar við að sýna ykkur Hof og finna aðstöðuna ykkar þar.

Söngsmiðjurnar eru á fimm stöðum í bænum. Skipulagðar ferðir verða frá Hofi (rokk- og þjóðlagasmiðja) og Skipagötu (madrigalasmiðja) strax eftir söngsmiðjurnar báða dagana í hádegisverð í Íþróttahöllinni. Best væri að nýta þær rútur sem kórarnir koma á norður til þessara flutninga. Því biðjum við ykkur sem koma með rútu að hafa samband við okkur sem fyrst.

Minnið konurnar ykkar á hagnýt atriði eins og að;

  • koma með kórbúningana
  • muna eftir og merkja vel söngheftin sín
  • vera með vatnsflösku á sér
  • ekki vera með verðmæti í Hofi þar sem öll aðstaða er opin.

Óvissuferðin verður innan bæjarmarka Akureyrar og utandyra að mestu leyti. Gott er að hafa með sér hlýjan fatnað og góða skó og vonumst við til að sem flestar taki þátt í henni. Þetta verður svolítið rölt, þó ekki langt, en það væri afar gott að vita ef einhverjar þurfa að láta keyra sig á milli.

Ekki má gleyma galakjólnum / partýdressinu fyrir hátíðarkvöldverðinn en einnig verður hægt að koma við í miðbæ Akureyrar og á Glerártorgi og versla sér inn fyrir kvöldið.

Upplýsingar um landsmótið eru komnar inn á heimasíðu landsmótsins á www.kvak.is og á www.gigjan.is. Þar má einnig finna dagskrána, tónleikaskrá fyrir bæði laugardags- og sunnudagstónleikana og skiptingu kóranna á tónleikunum í Hofi.

Laugardaginn 10. maí verða tónleikar kóranna og þá er opið hús fyrir gesti og gangandi og þið kæru kórkonur getið notið þess að hlusta hver á aðra bæði í Hamraborginni og í Hömrum. Sunnudaginn 11. maí verða hátíðartónleikarnir. Þetta verður sannkölluð tónlistarveisla og aldrei hafa svo margar konur stigið á svið í Hamraborginni. Hvetjum við ykkur allar til að auglýsa þessa viðburði vel þannig að við fyllum Menningarhúsið Hof af gestum.

Matseðlar helgarinnar eru inni á heimasíðunni og höfum við kappkostað að hafa sem fjölbreyttastan mat þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Við hvetjum ykkur til að hafa samband ef einhverjar séróskir eru vegna ofnæmis eða annars.

Dagskráin fyrir mótið er einnig í mótsblaðinu sem allar kórkonur fá við komu til Akureyrar á föstudaginn. Þar verður einnig tónleikaskrá mótsins.

Gangi ykkur öllum vel í ykkar undirbúningi fyrir landsmótið og við hittumst hressar og kátar og syngjandi glaðar í Menningarhúsinu Hofi á föstudaginn.

Kær kveðja frá Kvennakór Akureyrar

Dagskrá Landsmóts kvennakóra 2014

27. apríl 2014

Föstudagurinn 9. maí
15:00 – 16:00 – Móttaka í Menningarhúsinu Hofi - afhending mótsgagna
16:00 – 17:30 – Setning landsmóts og sameiginleg æfing í Menningarhúsinu Hofi, Hamraborg
17:30 – 18:30 – Frjáls tími
18:30 – 19:00 – Fundur Gígjunnar í Íþróttahöll
19:00 – 20:00 – Kvöldverður í Íþróttahöll
20:00 – 23:00 – Óvissuferð

Laugardagurinn 10. maí
08:45 – 11:15 – Söngsmiðjur

  • Gígjusmiðja í Brekkuskóla
  • Madrigalasmiðja í sal Einingar Iðju, Skipagötu 14
  • Norræn kvennakóralög í sal Öldrunarheimilisins Hlíð
  • Rokksmiðja í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi
  • Spunasmiðja Íþróttahöllinni
  • Þjóðlagasmiðja í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi
11:30 – 12:00 – Frjáls tími
11:30 – 12:15 – Fundir kórstjóra og formanna í Brekkuskóla
  • Fyrirlestur fyrir kórstjóra: Sigríður Eyþórsdóttir heldur erindi „Gleði og nýsköpun í starfi kórstjóra – nokkrar hugmyndir og vangaveltur“.
11:30 – 12:30 – Hádegisverður í Íþróttahöll
12:30 – 13:30 – Frjáls tími
13:30 – 14:30 – Sameiginleg æfing í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi
14:30 – 15:30 – Undirbúningur fyrir tónleika
15:30 – 17:30 – Tónleikar kóranna í Hamraborg og Hömrum í Menningarhúsinu Hofi
17:30 – 19:30 – Frjáls tími
19:30 – 00:00 – Hátíðarkvöldverður og dansleikur í Íþróttahöll

Sunnudagurinn 11. maí
09:00 – 11:15 – Söngsmiðjur

  • Gígjusmiðja í Brekkuskóla
  • Madrigalasmiðja í sal Lions, Skipagötu 14
  • Norræn kvennakóralög í sal Öldrunarheimilisins Hlíð
  • Rokksmiðja í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi
  • Spunasmiðja Íþróttahöllinni
  • Þjóðlagasmiðja í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi

11:15 – 12:15 – Hádegisverður í Íþróttahöll
12:30 – 14:00 – Sameiginleg æfing í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi
14:00 – 15:00 – Undirbúningur fyrir tónleika
15:00 – 16:30 – Hátíðartónleikar í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi
16:30 – 17:30 – Kveðjukaffi og mótsslit í Menningarhúsinu Hofi

Tónleikar kóranna laugardaginn 10. maí kl. 15:30 í Menningarhúsinu Hofi

27. apríl 2014

Hamraborg
  1. Kvennakór Hornafjarðar
  2. Léttsveit Reykjavíkur
  3. Jórukórinn, Selfossi
  4. Cantabile, Reykjavík
  5. Kvennakór Reykjavíkur
  6. Kvennakórinn Ljósbrá, Hellu
  7. Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur
  8. Kvennakór Hafnarfjarðar
  9. Kvennakór Kópavogs
  10. Kvennakór Akureyrar

Hamrar

  1. Salka Kvennakór, Dalvík
  2. Freyjukórinn, Borgarfirði
  3. Kvennakórinn Ymur, Akranesi
  4. Kvennakór Garðabæjar
  5. Heklurnar, Mosfellsbæ
  6. Kyrjurnar, Reykjavík
  7. Kvennakórinn Norðurljós, Hólmavík
  8. Kvennakórinn Seljurnar, Reykjavík
  9. Kvennakór Ísafjarðar
  10. Vox Humana, Noregi

Matseðlar á Landsmóti íslenskra kvennakóra á Akureyri 9. - 11. maí 2014

27. apríl 2014

Föstudagur 9. maí
Léttur kvöldverður í Íþróttahöllinni á hlaðborðum
Grænmetiseggjanúðlur, ostbakaðir sjávarréttir og grillsteiktar kjúklingabringur bbq. borið fram með fersku blönduðu salati, steiktum kartöfluteningum, rótargrænmeti og sveppasósu

Laugardagur 10. maí
Hádegisverður í Íþróttahöllinni á hlaðborðum
Ostbakaður pastaréttur með kjúkling og grænmeti í rjómasósu, steikt grænmetishrísgrjón með sjávarfangi, ferskt blandað salat, minestrone súpa, brauð og smjör

Hátíðarkvöldverður 10. maí
Forréttur
Glóðað crostini með graflaxtartar, djúpsteiktur humarhali thepura og marineraðar rækjur í chilisósu borið fram með blönduðu salati og smjördeigsbakstri
Aðalréttur
Grillsteiktur lambaframhryggur, kryddaður blóðbergi borinn fram með steiktu grænmeti gufusoðnu spergilkáli, hazzelback kartöflu portvínssósu
Desert
Fantasía
Ekta heimalöguð tíramisúterta borin fram með sultuðum berjum, þeyttum rjóma og skrautbakstri

Sunnudagur 11. maí
Hádegisverður í Íþróttahöllinni
Grænmetislasagne, risottó með kjúkling og grænmeti, ferskt blandað salat, humarsúpa með sjávarfangi, brauð og smjör