Fimmtudagskvöldið 14. nóvember síðast liðið stóð Bessastaðasókn fyrir glæsilegum tónleikum í Bessastaðakirkju til styrktar kaupum á línuhraðli fyrir Landsspítalann. Línuhraðall er tæki sem notað er við geislameðferð krabbameinssjúkra. Enginn aðgangseyrir var á tónleikana en frjáls framlög voru vel þegin og allir sem að tónleikunum komu gáfu vinnu sína.
Tónlistarfólk frá Álftanesi
Á tónleikunum komu fram fjölmargir tónlistarmenn sem allir, á einhvern hátt, tengjast Álftanesi. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá; einleik á klarinett og þverflautu, dúett á klarinett og píanó, einsöng, jazz-gítar-tríó og kórsöng.
Bæjarlistamaður söng einsöng með Kvennakór Garðabæjar
Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona og bæjarlistamaður Garðabæjar, söng einsöng með Kvennakór Garðabæjar en hún er jafnframt stofnandi og stjórnandi kvennakórsins. Kórinn söng auk þess tvö lög undir stjórn Ingibjargar. Meðleikari með kórnum var Sólveig Anna Jónsdóttir, píanisti og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar. Í lok tónleikanna fluttu Álftanesskórinn og Kvennakór Garðabæjar saman verkið Ave Maria eftir Giulio Caccini (1551–1618). Kvennakór Garðabæjar þakkar kærlega fyrir sig og vonar að söfnun kvöldsins hafi gengið vel.
Jólamerki til styrktar BUGL
Kvennakórinn hefur hafið sölu á fallegu rauðu jólamerki. Nú gefst velunnurum kórsins færi á að styrkja ferðasjóð kórsins og á sama tíma starfssemi Barna- og unglingadeildar Landsspítala, en hluti ágóða rennur til BUGL. Jólamerkið kostar 1000 kr. og er til sölu hjá kórkonum. Einnig er hægt að panta merkið með því að senda póst á netfangið; kvennakorgb@gmail.com
Næstu viðburðir Kvennakórs Garðabæjar
• 1. desember: Vídalínskirkja kl. 20:00, söngur á aðventukvöldi
• 9. desember: Digraneskirkja kl. 20:00, Aðventutónleikar
• 15. desember: IKEA kl. 17:30-18:30, jólasöngur fyrir gesti í IKEA
Kvennakór Garðabæjar er á facebook
Hægt er að fylgjast með starfssemi kórsins og viðburðum á hans vegum á facebook síðu Kvennakórs Garðabæjar: https://www.facebook.com/kvennakorgb