Nú líður að árlegum vortónleikum Jórukórsins. Eins og undanfarin ár verður boðið upp á tvenna tónleika, í Selfosskirkju laugardaginn 5. apríl kl. 16:00 og félagsheimilinu Þingborg sunnudaginn 6. apríl kl. 20:30, þar verður kaffihúsastemning ríkjandi og boðið er upp á kaffi og konfekt.
Lagavalið er mjög fjölbreytt, létt og skemmtilegt. Vinsæl íslensk og erlend dægurlög sem Stefán Þorleifsson hefur raddsett fyrir kórinn og einnig klassísk lög úr ýmsum áttum. Þjóðlög frá Ítalíu og Chile eru líka á dagskrá en tveir kórfélagar koma frá þessum löndum. Við vonum að tónleikagestir á öllum aldri finni þarna eitthvað við sitt hæfi.
Hljóðfæraleikarar með kórnum verða Róbert Dan Bergmundsson á bassa og Stefán Ingimar Þórhallsson á trommur að ógleymdum stjórnandanum Stefáni Þorleifssyni á píanó/hljómborð en þeir félagar mynda kjarnann í Djassbandi Suðurlands.
Milli 40 og 50 konur hafa æft saman í vetur undir styrkri stjórn Stefáns, sem nú er að ljúka sínu öðru starfsári með kórnum. Vetrarstarfið hefur verið afar ánægjulegt og árangurinn kemur í ljós á tónleikunum, sem eru okkar uppskeruhátíð og hápunktur í kórstarfinu.