Eins og svo oft áður er líf í tuskunum og spennandi verkefni framundan hjá söngkonunum í Kvennakór Kópavogs. Skemmtikvöld með öðrum kórum er handan við hornið, undirbúningur vortónleika þann 15. mars í Hörpu á fullu skriði og í maí mun kórinn fjölmenna á landsmót kvennakóra sem verður í ár haldið á Akureyri. Stjórnandi kórsins er Gróa Hreinsdóttir en hún hefur starfað með kórnum um nokkurt skeið.
Laugardaginn 15. mars n.k. heldur kórinn tvenna tónleika í Kaldalóni í Hörpu. Fyrri tónleikarnir verða kl. 16.00 og þeir síðari kl. 20.00. Fluttar verða léttar og sígildar dægurperlur sem spanna tímabilið allt frá kreppuárum fram yfir seinna stríð. Á efnisskránni má m.a. nefna lög eins og Papermoon, Dream a little dream og Sugartime en einnig verður flutt syrpa af lögum frá sjöunda áratug síðustu aldar. Undirleikarar verða þeir Árni Heiðar Karlsson á píanó og Birgir Bragason á bassa.
Kórkonur munu að sjálfsögðu "dressa sig upp" í takt við tíðaranda efnisskrárinnar og yfirskrift tónleikanna sem er "Perlur og pilsaþytur", með hárgreiðslu í stíl. Það verður því sjónarspil á ferð ásamt ljúfum tónum.
Kvennakórinn er nú á sínu 12. starfsári. Kórinn hefur tekið virkan þátt í menningarlífi Kópavogsbæjar og ber þar hæst að undanfarin fimm ár hefur hann staðið fyrir átaki til stuðnings Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Stuðningur kórsins hefur verið bæði í formi fatasöfnunar og tónleikahalds en tónleikarnir "Hönd í hönd" eru velunnurum kórsins að góðu kunnir. Fjölmargir kunnir tónlistarmenn hafa lagt þessu góða átaki lið og styrkur sem hefur runnið óskiptur til Mæðrastyrksnefndar er umtalsverður.
Hjá kvennakórnum hefur einnig skapast sú ánægjulega hefð að syngja á aðventumarkaði Ljóssins, endurhæfingar-og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda.
Miðar eru fáanlegir hjá kórkonum og í miðasölu Hörpu, harpa.is/perlur og pilsaþytur.