Senn líður að jólatónleikum Kvennakórs Hafnarfjarðar sem bera einfaldlega yfirskriftina Gleðileg jól! Karlakórinn Þrestir mun syngja með kórnum á þessum tónleikum sem haldnir verða í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 4. desember n.k. og hefjast kl. 20:00.
Á dagskrá tónleikanna verða jólasálmar og jólalög úr ýmsum áttum. Kórarnir munu syngja saman og hvor fyrir sig og má búast við hátíðarhljóm og hugljúfri jólastemmningu. Það er tilhlökkunarefni að fá Þrestina sem gesti á þessa tónleika Kvennakórs Hafnarfjarðar sem nú er að ljúka sínu nítjánda starfsári. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir komandi ár þegar kórinn fagnar tuttugu ára afmæli sínu. Verður þá væntanlega mikið við haft og verða fluttar nánari fregnir af viðburðum afmælisársins er nær dregur.
Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir, Antonía Hevesi leikur á píanó og flautuleikari er Kristrún Helga Björnsdóttir. Stjórnandi Karlakórsins Þrasta er Jón Kristinn Cortez.
Lista- og hannyrðakonan Arndís Sigurbjörnsdóttir mun skreyta Víðistaðakirkju í tilefni af tónleikunum.
Miðaverð er 2500 krónur og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri. Gestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.