Freyjukórinn í Borgarfirði heldur sína árlegu vortónleika í Reykholtskirkju síðasta vetrardag, 23. apríl kl. 20:30. Kórinn hefur fengið meistara Magnús Eiríksson til liðs við sig. Undirleik annast Gunnar Ringsted á gítar, Sigurður Jakobsson á bassa og Renata Ivan á píanó.
Í vetur hefur starf kórsins verið mjög öflugt, með þátttöku á Vökudögum í Borgarnesi, 200 ára ártíðartónleikum helguðum Wagner og Verdi á vegum Tónlistarskóla Borgarfjarðar, tvennum aðventutónleikum með Karlakór Kjalnesinga, í mars stóð kórinn í 3ja sinn fyrir söngbúðum með Kristjönu Stefánsdóttur eina helgi sem kallast Syngjandi konur á Vesturlandi, en söngbúðirnar eru opnar öllum konum á Vesturlandi og hafa um 70 konur tekið þátt ár hvert. Syngjandi konur héldu þrenna tónleika, í Borgarnesi, Grundarfirði og Reykjavík. Auk þessa tók kórinn þátt í minni atburðum af ýmsu tagi. Framundan eru svo landsmót kvennakóra á Akureyri og þátttaka í einum tónleikum í Borgarnesi í maí.