Kvennakór Garðabæjar tekur til starfa að nýju næst komandi þriðjudag 26. ágúst og mæta kórkonur kátar og orkumiklar eftir langt og gott sumarfrí. Síðasta starfsár var viðburðarmikið og nóg um krefjandi og skemmtileg verkefni. Starfsárinu lauk með vortónleikum í Guðríðarkirkju í maí. Tónleikarnir voru að venju mjög vel sóttir, góður andi ríkjandi og að gömlum og góðum sið Kvennakórsins, var tónleikagestum boðið upp á léttar veitingar í lokin.
Afmælisár framundan - Kvennakór Garðabæjar 15 ára
Á þessu starfsári fagnar Kvennakór Garðabæjar 15 ára starfsafmæli, en öll árin hefur kórinn starfað undir farsælli stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur sópransöngkonu. Eins og gengur og gerist hafa konur komið og farið, sumar staldrað stutt við, aðrar lengur. En kórinn hefur átt því láni að fagna, að kjarni kvenna sem byrjaði í kórnum á fyrsta starfsárinu starfar enn með kórnum að fullum krafti og eru í því fólgin ómetanleg verðmæti. Sú þekking og reynsla af kórstarfinu sem þær hafa miðlað óeigingjarnt áfram, skilar sér í sífellt meiri metnaði og áhuga kórkvenna.
Dagskrá afmælisárs
Þessum áfanga ber að fagna, og hefur stjórn lagt drög að dagskrá afmælisársins. Dagskráin verður að kynnt á Facebook síðu kórsins og með öðrum hætti, þegar hún skýrist.
Um Kvennakór Garðabæjar
Stofnandi Kvennakórs Garðabæjar og stjórnandi hans frá upphafi er Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona og söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Kvennakórinn er skipaður u.þ.b. 32 konum. Kórinn æfir í Tónlistarskóla Garðabæjar á þriðjudagskvöldum frá kl. 19.30-22.00 og annan hvern laugardagsmorgun. Auk söngsins er mikið félagsstarf unnið í kórnum og ríkir góð stemning og samheldni meðal kórkvenna. Kórinn er afar þakklátur fyrir þann digga hóp stuðningsmanna og tónleikagesta sem hafa fylgt honum frá upphafi og fer sá hópur ört vaxandi.
Viltu slást í hópinn?
Vanar kórkonur sem hafa áhuga á að fá inngöngu í Kvennakór Garðabæjar, er bent á að hafa samband við Ingibjörgu Guðjónsdóttur kórstjóra á netfanginu: kvennakorgb@gmail.com
Kvennakór Garðabæjar á Facebook
Hægt er að fylgjast með starfssemi kórsins á facebook síðu Kvennakórs Garðabæjar